Hið íslenska svefnrannsóknafélag hefur sent út eftirfarandi fyrirspurn á alla stjórnmálaflokka í framboði til alþingiskosninga.

  1. Hvaða stefnu hefur ykkar stjórnmálaflokkur varðandi breytingar á staðarklukku á Íslandi (halda óbreyttu eða seinka staðarklukku um 1 klst)?
  2. Vill ykkur flokkur seinka staðarklukku allt árið um kring eða breyta í sumar- og vetrartíma?

Sjá nánari upplýsingar um málið hér:

Grein á Vísi 5.október 2017

Kastljós 5.október 2017

Þingsályktunartillaga 67/145 2015-2016

Greinargerð HÍS til Alþingis 2014 (PDF)

SÍBS blaðið (PDF)

______________________

Svör sem borist hafa frá stjórnmálaflokkum (í stafrófsröð):

Alþýðufylkingin:

Alþýðufylkingin hefur ekki beint mótað sér stefnu í þessu máli. En ég tel mér óhætt að segja að við séum hlynnt því sem læknavísindin mæla með. Þannig að ég get svarað því játandi, að við mundum styðja það að klukkan fylgi betur sólarhringnum og líkamsklukkunni.
Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
& oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður
__________
Björt framtíð:

Svar við spurningu 1:

Stefna Bjartrar framtíðar er að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund, sbr. þingsályktunartillaga sem þingmenn flokksins, ásamt fleirum, fluttu um málið síðast á 145. löggjafarþingi, enda teljum við að um sé að ræða mikilvægt lýðheilsumál.

Svar við spurningu 2:

Tillaga Bjartrar framtíðar er að seinka staðarklukku um klukkustund árið um kring en útilokar ekki að einungis verði um seinkun að ræða yfir vetrartímann, komi fram góð rök þar að lútandi og verði það niðurstaða þverpólitískrar skoðunar innan þings.

__________

Flokkur fólksins:

Auðvitað eigum við að vera á réttu tímabelti því líkamsklukkan gengur í samræmi við sólargang.

Pétur Einarsson 2. sæti Flokk Fólksins í NA kjördæmi

__________

Framsóknarflokkur:

Við í Framsókn höfum ekki mótað okkur stefnu varðandi þetta mál.

__________

Miðflokkur:

Miðflokkurinn var fyrst stofnaður formlega sunnudag 8 október
síðastliðinn. Við höfum ekki mótað stefnu um öll mál en mun það vera gert á næstu misserum.  En í stórum dráttum er stefna Miðflokksins á
heimsíðu Miðflokksins sjá:  www.midflokkurinn.is/kosningastefna/
__________

Samfylking:

Svar við sp. 1:

Samfylkingin hefur ekki tekið afstöðu í þessu efni en er reiðubúin að skoða allar breytingartillögur opnum huga. Hér verða að ráða heildarhagsmunir og hentugleikar fólks og fyrirtækja.

Svar við sp. 2:

Við höfum ekki rætt þetta ýtarlega. Ákveðnir kostir eru við að fylgja nágrannaþjóðum okkar og helstu viðskiptaþjóðum í sumar/vetrartíma, en sérstakri skiptingu tvisvar á ári getur líka fylgt umstang og ruglingur. Flokkurinn er reiðubúnn að stuðla að ráðslagi vísra manna um staðarklukkuna, og leggja niðurstöður þeirr síðan til almennrar og þinglegrar umræðu.

__________

Sjálfstæðisflokkur:

Ekki á stefnuskrá – ekki verið tekin afstaða varðandi klukkubreytingar
__________
Viðreisn:

Svar við spurningu 1:

Viðreisn hefur ekki mótað stefnu staðarklukku á Íslandi. Flokkurinn er hins vegar óhræddur við breytingar og reiðubúinn að vega og meta öll málefnaleg sjónarmið faglega með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

 

Svar við spurningu 2:

Svar: Ofangreint svar á við hér.

__________

Vinstri grænir:

Svar við spurningu 1:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ekki ályktað um breytingar á staðarklukkunni á Íslandi, en þrír þingmenn hreyfingarinnar, þau Álfheiður Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Árni Þór Sigurðson voru árið 2010 meðflutningsmenn að þingsályktunartillögu Guðmundar Steingrímssonar og Róberts Marshall um „seinkun klukkunnar og bjartari morgna“. Samkvæmt tillögunni hefði ríkisstjórninni verið falið að seinka klukkunni um eina klukkustund, þannig að tíminn væri réttar skráður miðað við hnattstöðu landsins.

Vinstrihreyfingin grænt framboð vill að hlustað sé á vísindamenn á sviði lýðheilsu sem telja að líffræðileg og félagsfræðileg rök hnígi að því að stilla klukkuna meira í takt við líkamsklukkuna, sem aftur er háð hnattstöðunni. Það er staðreynd að þegar sól er hæst á lofti á Íslandi yfir vetrartímann er klukkan í Reykjavík hálf tvö, en ekki tólf.

Yrði klukkunni seinkað um eina klukkustund væru morgnarnir bjartir langt fram í nóvember og byrja aftur að verða bjartir síðari hluta janúar. En áður en slík ákvörðun yrði tekin þarf að fara fram vönduð úttekt á rannsóknum og öllum þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram um þessi mál.

Svar við spurningu 2:

Sá háttur að hafa óbreyttan tíma árið um kring, en ekki sumar- og vetrartíma eins og tíðkast á meginlandi Evrópu, hefur að flestra mati gefist vel og sumar Evrópuþjóðir, þ.á m. Frakkar, hafa litið til þessa fyrirkomulags sem góðs fordæmis, óháð því hvað klukkan er í raun og veru.

Sem fyrr segir hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð ekki ályktað um þetta efni en af umræðum á alþingi má ráða að talsmenn Vinstri grænna telja það kost að vera ekki að hringla með klukkuna eftir árstíðum, óháð því hvort klukkunni yrði seinkað um klukkustund eða hún höfð óbreytt, eins og spurt er um hér að framan.